Hvað á maður að gera við síðasta daginn á sýningunni? Þessari spurningu hafði ég velt fyrir mér kvöldinu áður. Ég var búinn að gera allt sem ég ætlaði mér að gera á þessari sýningu. Kynna mér verðin á dúnsængum og koddum beint frá framleiðanda. Heimsækja alla mína gömlu kontakta og finna nokkra nýja. Fara út að borða á góðum veitingastöðum. Meira um það seinna. Þannig að dagskráin fyrir þennan síðasta dag Heimtextil 2019 var frekar opin.
Mitt fyrsta verk var því að heimsækja Mislav frá Króatíu og ræða um kvöldmatinn. En Mislav var búinn að bjóða mér að koma út að borða með honum og samstarfsfólki hans þetta loka kvöld. Kabuki hét veitingastaðurinn sem var í sigtinu. Japanskur veitingastaður í heimsklassa við Keiserstrase. Mjög erfitt að fá borð og þeir taka ekki við pöntunum í gegnum síma. Ég er búinn að reyna að panta í gegnum netið en það virðist ekki vera hægt í gegnum símann minn. Sagði Mislav hálf vondaufur við mig þegar ég kom. En við ætluðum samt að láta á þetta reyna og fara saman beint af sýningunni klukkan fimm. En þennan síðasta dag lokaði sýningin klukkutíma fyrr en alla hina dagana venju samkvæmt.
Nafnspjöld eru mikilvægur þáttur af svona ráðstefnu til að spara tíma. Allir eru með nafnspjöld. Nema ég þennan síðasta dag sem var ekki gáfulegt. Svo í staðin fyrir að reyna að finna fullt af nýjum kontöktum og útskýra afhverju ég væri ekki með nafnspjald eins og einhver 3ja flokks amatör. Ákvað ég að heimsækja nokkur fyrirtæki sem ég hafði átt í viðskiptum við áður. Að vera nafnspjaldalaus síðasta daginn er kannski ekki alveg eins slæmt og það hljómar. Ég hef lent í þessu áður. Á minni fyrstu sýningu var ég bara með nokkur nafnspjöld sem kláruðust strax. Fólk var mis ánægt með það en flestir sýndu mér skilning og skrifuðu niður af mikilli samviskusemi nafn, heimilsfang, símanúmer og aðrar upplýsingar sem hefðu átt að vera á nafnspjaldinu.
Í kjallaranum á Asíudeildinni var lítill bás. Eins lítill og hægt var að leigja held ég. Ef þú vildir skoða eitthvað þurfti starfsfólkið að færa sig. Í þessum litla bás var fyrirtækið Singdong með aðstöðu. Fyrirtæki sem ég hef verslað mikið við en ekki nýlega og hvergi var Emily vinkona mín sjáanleg. Sem var nú ekki skrítið. Hún var heima í Kína að vinna. Sjálfsagt fegin að þurfa ekki að ferðast í einhverja 20 tíma aðra leiðina. En samstarfskona hennar lofaði að finna ný verð handa mér og láta Emily hafa síðan samband. Alltaf fyndið þegar maður heimsækir svona lítinn bás og viðkomandi fullyrðir að hann sé eitt stærsta og virtasta fyrirtækið í Kína á sínu sviði. Maður tekur viðkomandi ekki mjög alvarlega.
Næst heimsótti ég fyrirtæki frá Indlandi sem hafði sent mér prufur fyrir nokkrum árum. Verðin voru í lagi en þeir voru ófáanlegir til að senda mér réttu prufunar. Vildu bara að ég tæki mark á því sem þeir sögðu. En þannig virkar þetta ekki hjá mér. Ég var ekki tilbúinn að kaupa gám af rúmfötum gegn munnlegu loforði að allt yrði í lagi. En þeir voru með skemmtilegar útgáfur af rúmfötum sem ég hef ekki séð hjá öðrum þarna á sýningunni. Á þessari sýningu var básinn þeirra aðeins dauflegri en síðast. Kannski er viðskiptastríðið hans Trump byrjað að virka. Án þess að spjalla mikið við þennan eina sölumann sem var á svæðinu fékk ég að vita að þeir væru ennþá tilbúnir að eiga viðskipti ef áhugi væri til staðar hjá mér.
Því næst leit ég á klukkuna og sá að ég hafði tæpa tvo tíma til að láta mér leiðast áður en ég átti að hitta Mislav frá Króatíu. Það var því ekkert annað að gera en að rölta aftur til Ítalana. Þegar þangað var komið var verið að ganga frá og sumir farnir heim. Þannig að það var lítið gaman. Á básnum við hliðina var annað ítalskt fyrirtæki í sama geira. Þar var líka byrjað að pakka niður. En mér tókst að króa einn sölumanninn af og sá varð ekkert smá ánægður þegar ég lýsti yfir áhuga að kaupa efni af honum. Það var náð í nammi og vatn og síðan sýndi hann mér allt sem til var í húsinu.
Það er alltaf meira gaman þegar tekið er vel á móti manni. Hvergi hefur verið tekið betur á móti mér en einmitt af Mislav og samstarfsfólki. Þegar ég heimsótti fyrirtækið fyrir nokkrum árum kom starfsfólk heim úr fríi til að hitta mig. Síðan fór Mislav með mig á íshokkileik og út að borða. Hótelið var líka geggjað sem þau settu mig á. Á þessum tímapunkti hafði ég ekki verslað neitt að ráði frá þeim bara nokkra dúka og servéttur. Samt var komið fram við mig eins og mikilvægan viðskiptavin og kunningja til margra ára.
Til að gera langa sögu stutta fór ég út að borða með Mislav og félögum. Kabuki veitingastaðurinn var náttúrulega fullur og hló þjóninn hátt og mikið þegar framkvæmdastjórinn reyndi að panta borð handa okkur. Því var bara haldið áfram og einhver veitingastaður valinn af handahófi. Sem reyndist ekki vera mjög góður. Við fengum öll enska matseðilinn en nýja sölukonan talar fullkomna þýsku og bað um þýska seðilinn frekar. Ekkert mál sagði þjónninn og settist hópurinn niður. Það kom svo í ljós að verðið á enska matseðlinum var 25% hærra. Ekkert smá fyndið. Eftir smá þras um hvað gera ætti báðum við öll um þann þýska og pöntuðum. Steikin sem ég pantað var svo sem æt en hamborgaranir og annað var víst ekkert sérstakt. Svo kom desertin sem ég sleppti sem betur fer. Aumingja Mislav pantaði köku sem reyndist vera sápustykki eða eitthvað álíka.